Hugmyndavinna fyrir Merkurtún, ævintýragarð fór fram í lok árs 2023. Um var að ræða samkomulag um frumhönnun fyrir Merkurtún. Þrjár stofur voru fengnar til að koma með tillögur af Merkurtúni, Landlínur var ein af þeim.
Unnar voru tvær tillögur annars vegar tillögu sem nefnist Holt og hæðir og hins vegar Sumar og vetur.
- Tillögurnar sækja innblástur í hafið, form þess, liti og áferð, einnig ákváðum við að nota steypu í gólf og bekki til að tengja við gamla tíma sementsverksmiðjunar sem spilar stóran þátt í atvinnusögu bæjarins.
- Í báðum tillögunum er garðinum skipt upp í tvö svæði, þ.e hreyfisvæði og dvalarsvæði.
- Aðal inngangur garðsins sem er frá Skólabraut er færður eilítið til austurs til að gefa meira svigrúm fyrir hreyfisvæðið og einnig möguleika á bílastæði við inngang garðsins.
- Við sáum ákveðið tækifæri í að nýta okkur það skemmtilega sjónarhorn sem er frá Skólabraut þegar keyrt er í vestur átt og leggja til að reyst verði kennileiti eða einhvers konar skúlptúr við innganginn til að laða að fólk og börn þannig að það veki forviti og löngun til að nýta garðinn.
- Við gerðum könnun á opnum svæðum, skólum og leikskólalóðum á Akranesi með það fyrir augum að þau leiktæki sem valin yrðu á Merkurtúni væri ekki að finna á Akranesi. Okkur þykir mikilvægt að leiktækin veki áhuga og spennu hjá börnum þannig að líf færist inn í garðinn. Einnig horfðum við á hugmyndir barnanna við val á leiktækjunum fyrir garðinn.
- Lögð er mikla áhersla á við hönnun garðsins að hreyfing og hreysti fái pláss, ásamt því að skapa rými fyrir rólega dvöl á þeim hluta sem nýtur sólar og hlýju.
- Í báðum tillögunum gengur steyptur kantur í gegnum garðinn sem bylgjast frá innganginum við Skólabraut og að Sóleyjargötu. Um leið og form kantsins endurspeglar öldur hafsins, leiðir hann gestina inn í ævintýri garðsins. Kantinn má nýta sem setkant og einnig er lagt til að koma fyrir timbursetu og baki á völdum stöðum. Kanturinn hjálpar til við að hækka gróðurbeðin og þar með að auka rýmis -og skjólmyndun innan garðsins. Gesturinn situr með bakið í gróðurinn og hefur yfirsýn yfir garðinn sem skapar öryggistilfinningu og andrými fyrir viðkomandi að njóta stundarinnar og vera jafnvel eitt með sjálfum sér án þess að vera í hringiðu leiks.
Holt og hæðir
- Það sem gerir þessa tillögu sérstaka er tartan lagðir hólar með möstrum sem hægt er að nota sem klifursúlur, einnig bryggjur til að skapa hugrenningartengsl við hafið og grípa staðaranda útgerðabæjar. Hólarnir með möstrunum gefa listræna upplifun, vegna form síns og lita. Einnig er það von okkar að hólarnir veki áhuga barna og fullorðinna til að spreyta sig í klifurlistinni.
Sumar og vetur
- Það sem gerir þessa tillögu sérstaka er svæði með vatnsbrunnum. Svæðið hefur margþættan tilgang, þ.e. gefa róandi hljóð inn í rýmið, listræna upplifun og uppspretta skemmtilegra leikja hjá börnum og fullorðnum. Við sjáum fyrir okkur að þetta svæði mætti nýta sem skutasvæði á veturna og inn í hringinn mætti koma fyrir jólatré á aðventunni sem gæti gefið fallega stemningu á skautasvellinu.