Hönnun og landslagsarkitektúr

VERKSVIÐ LANDSLAGSARKITEKTA

Landslagsarkitektar eru sérfræðingar sem vinna við að gera manngert umhverfi vistlegt, hagkvæmt og fallegt, án þess að ganga að óþörfu á náttúruleg gæði. Landslagshönnunarverkefni sem Landlínur hafa komið að eru afar fjölbreytt. Þar má nefna hönnun opinberra lóða við leikskóla, hótel, dvalarheimili og kirkjugarða svo dæmi séu tekin. Einnig hefur fyrirtækið séð um landslagshönnun á nokkrum ferðamannastöðum svo sem tjaldsvæðum og áningarstöðum. Landlínur hafa auk þess unnið að hönnun fjölda einkagarða.

GÖGN SEM HÆGT ER AÐ ÚTBÚA

Í upphafi verkefnis er fyrst hugað að grunnhönnun og efnisnotkun á ætluðu framkvæmdasvæði. Í kjölfarið er hægt að útbúa vinnuteikningar, útboðsgögn og kostnaðaráætlun. Verkkaupi ákveður hversu ítarleg gögn hann þarf hverju sinni.

NÁNARI ÚTSKÝRINGAR Á GÖGNUM

Grunnhönnunin, ásamt tillögum að efnisnotkuninni, er yfirleitt lögð fram í mælikvarðanum 1:100 til 1:500. Með slíkri teikningu er búið að ákveða afmörkun rýma og notkun þeirra. Gróðursvæði eru þá skilgreind og gólfefni ákveðin. Gróðurteikning gefur upplýsingar um tegundir og fjölda plantna og fjarlægðir á milli þeirra. Vinnuteikningar eru teikningar fyrir iðnaðarmenn til að vinna eftir og eru nauðsynleg gögn þegar útbúa á útboðsgögn. Útboðsgögn innihalda vinnuteikningar, vinnulýsingar og magntölur. Í kjölfar útboðsvinnu er iðulega gerð kostnaðaráætlun þar sem gert er grein fyrir kostnaði við einstaka verkliði framkvæmdarinnar.