Landfræði

HNITUN LANDAMERKJA

Landlínur hafa séð um að útbúa landamerkjaskjöl til þinglýsingar (m.ö.o. hnitsetningargögn yfir landamerki) fyrir landeigendur sem þess óska. Yfirleitt er stuðst við örnefnalýsingar í hinum gömlu landamerkjabréfum sem til eru fyrir flest allar jarðir, en hnitsetningin getur þó einnig tekið mið af öðrum heimildum eða sérstöku samkomulagi landeigenda. Hnitsetning landamerkja er víða brýn þar sem vitneskja um kennileiti (örnefni) sem afmarka landamerki jarða eru stöðugt að minnka. Sjá meira hér.

LANDSKIPTI JARÐA

Vinna við landskipti eru vandmeðfarin. Mikilvægt er að landeigendur séu sáttir um þann ráðgjafa sem annast mun landskiptin. Ráðgjafi þarf að gæta fyllsta hlutleysis gagnvart öllum hlutaðeigandi aðilum. Áður en vinna hefst við skiptingu þess lands sem liggur til grundvallar er unnin svonefnd landslags- og nytjagreining. Í slíkri greiningu er land metið og því skipt niður í flokka (misjafnt hversu margir þeir eru) eftir landslagsgerð og notagildi lands. Landið er flokkað eftir núverandi ástandi og mögulegri framtíðarnýtingu þess. Þannig er það land sem unnið er með skipt niður með tilliti til þess hversu verðmætt það er talið. Þegar landslags- og nytjagreining liggur fyrir, sem allir eru ásáttir um, leggja landeigendur fram sínar óskir um úthlutun lands. Sjá dæmi um landslags og nytjagreiningu jarðar hér. Í framhaldi af því vinnur ráðgjafi tillögu að landskiptum út frá fyrrgreindri landslags- og nytjagreiningu, hugmyndum og óskum hvers og eins landeiganda, og landskiptalögum. Við skiptagerð er yfirleitt leitast við að hver eignarhluti sé samfellt land en aðstæður geta þó verið þannig að hjá því verður ekki komist að land sé aðskilið.

STAÐSETNING ÖRNEFNA

Landlínur hafa, með hliðsjón af tilmælum frá Landmælingum Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, unnið að því að skrá örnefni á myndkort (hnitrétt loftmynd) út frá sérstökum verklagsreglum. Örnefnaskrár eru til fyrir flestar jarðir landsins en þær eru yfirleitt eingöngu í formi ritaðs texta. Vitneskja um hvar skráð örnefni eru staðsett í landi er víða að tapast með eldri kynslóðum og því er brýn þörf á átaki í skráningu örnefna á myndkort. Sjá meira um hnitsetningu örnefna hér.

GPS MÆLINGAR

Landlínur hafa um nokkurra ára skeið boðið upp á GPS landmælingar þar sem stuðst er við mælibúnaði frá Trimble. Búnaðurinn nýtist vel til mælinga í dreifbýli, hvort tveggja til innmælinga og útsetninga. Mælibúnaður reiðir sig á hin bandarísku GPS tungl við útreikninga en býður einnig upp ýmsa möguleika á rauntíma-leiðréttingum. Einnig er hægt að framkvæma eftir-á-leiðréttingar á mældum gildum. Staðsetningarnákvæmni mælibúnaðar er yfirleitt á bilinu 0-30 cm. Sjá meira um landmælingar hér.