Hugmyndavinna fyrir Brákarey fór fram árið 2007, ekki var að ræða um samkeppni, eða var um neina dómnefnd að ræða til að meta vinnuna. Sveitarstjórn Borgarbyggðar hafði áhuga fyrir því að fá mismunandi sjónarhorn á skipulag í Brákarey frá fimm stofum, Landlínur var ein af þeim.
Hugmyndarvinna um rammaskipulag í Brákarey:
Megin markmið skipulagsins var að gera Brákarey að þungamiðju menningarlífs Borgarfjarðar. Með því móti er hlúð að menningar- og söguarfi Borgfirðinga til framtíðar.
Landfræðileg staðsetning eyjarinnar er afar skemmtileg, hún er fallega staðsett í bæjarmyndinni. Hún er sýnileg frá þjóðvegi 1 og því góðir möguleikar á að setja upp fallega lýsingu á byggingar og listaverk þannig að eyjan verði betur sýnileg og hefur þannig möguleika á að verða að markaðsvöru Borgarfjarðar.
Skipulagið tekur mið af formi, staðbundnu veðurfari og landhalla eyjunnar. Skipulagið er einfalt. Það gerir ráð fyrir torgi á háhæð eyjunnar og byggingar umhverfis það.
Byggingarnar umhverfis torgið eru tengdar saman með léttum glerbyggingum. Þessar byggingar gegna mikilvægu hlutverki, þær draga úr vindstreng á milli húsa, þær eru anddyri bílastæðahúss, þær eru lyftuhús, stigahús og tengigangur á milli bygginga og svo ekki síst opna þær sýn út á móti hafinu ef staðið er inn á torginu.
Tvær eldri byggingar fá að standa í þessu skipulagi. Það er byggingin við Brákarbraut 18 og bygging sem stendur niður við höfn. Valmaþak er á byggingu við Borgarbraut 18, en einungis öðru megin, þ.e. á norðaustur hluta þess. Í skipulaginu er tekið tillit til þess og gefinn möguleiki á því að stækka bygginguna til suðvesturs og ljúka við þakform hússins. Gert er ráð fyrir einhalla þökum á öllum nýjum byggingum. Gert er ráð fyrir að þökin halli niður á móti norðri og austri. Það er gert til að kljúfa og beina ríkjandi vindi upp yfir útisvæðin og fanga birtu inn í byggingarnar. Gerð er undantekning á aðalbyggingu svæðisins, á lóð nr. 7, þar er heimilt að vera með tvíhallandi þak og hallandi inn á móti miðju. Þetta er gert til að gera bygginguna meira áberandi og einstaka í heildinni. Þakhalli á byggingunum á að vera á bilinu 8-15° sem vísar til hallans í klettaborgum í Borgarnesi.
Gert er ráð fyrir að byggingar verði byggðar úr timbri, gleri og grjóti með torfi á þaki. Torfið og grjótið er vísun í víkingatímann. Torf á þaki dregur úr vindi ásamt því að eyjan fær aftur sitt græna yfirbragð. Lagt er til að gerð verði undantekning á aðalbyggingu svæðisins til að skapa henni sérstöðu eins og nefnt var hér á undan.
Mikilvægt er að ekki verði gróðursett tré á torginu eða á önnur útisvæði á eyjunni. Einungis á að nota hleðslur, gras og hellur til að móta umhverfi torgsins og útisvæðanna. Torgið í miðjunni á að vera staður fyrir útisamkomur, þar verður hægt að kveikja á jólatré, vera með markaði, flytja gjörninga, vera með sýningar innan höggmyndalistar, sögusýninga og margt, margt fleira.