Deiliskipulagið í landi Steðja er innan landbúnaðarlands, skv. samþykktu Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022. Tillaga deiliskipulags í landi Steðja tekur til 3970 m² svæðis. Innan svæðisins er skilgreind einn lóð með fjórum frístundahúsum, sem verða leigð til ferðamanna. Lóðin afmarkast í suðri, austri og norðri af skjólbelti og í vestri af veginum Steðja (5160). Á aðliggjandi landi eru engar deiliskipulagsáætlanir í gildi. Aðkoma að lóð er um veginn Steðja (5160) sem tengist Borgarfjarðarbraut (50). Húsin eru þá þegar byggð. Við gildistöku deiliskipulags verður sótt um gistileyfi.
Markmið og forsendur skipulagsins:
Á jörðinni er brugghúsið Steðji sem er fjölskyldufyrirtæki. Þar hefur verið framleiddur bjór undir nafni Steðja frá árinu 2012. Eigendur hafa áhuga á frekari uppbyggingu á jörðinni og þá sérstaklega gagnvart uppbyggingu á ferðaþjónustu. Í brugghúsinu er gestastofa þar sem gestir geta komið og fengið að smakka afurðir brugghússins og fengið leiðsögn um framleiðslu á bjór. Með tilkomu frístundahúsa fyrir ferðamenn myndast jákvæð samlegðaráhrif, þ.e. betri nýting á starfsfólki og önnur hagræn áhrif. Frístundahúsin eru því góð og jákvæð viðbót við þá þjónustu sem er nú þegar í boði og mun styrkja núverandi starfsemi. Engu að síður er um að ræða sjálfstæða einingu.
Ákveðið var að afmarka skipulagsvæðið einungis við frístundahúsin þó að uppbygging á ferðaþjónustunni sé í nágrenni brugghúss. Eins og hefur komið fram, eru frístundahúsin þá þegar byggð og er verið að skipuleggja svæðið til að veiting gistileyfis geti átt sér stað. Það er mat sveitarfélagsins að ekki sé talin ástæða til að skipuleggja bæjartorfuna í heild sinni þar sem frístundahúsin séu í raun sjálfstæð eining og mikilvægt að skipulagið nái fram að ganga vegna veitingu gistileyfis. Að skipuleggja allt svæðið í heild sinni er umfangsmeira og flóknara ferli og gæti tafið uppbyggingu ferðaþjónustunnar.
Hér er hægt að skoða deiliskipulagið hér http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/display.aspx?numer=6518