Vegur um Vatnaleið var opnaður árið 2001 og kom í stað vegar um Kerlingarskarð. Vegurinn var mikil samgöngubót fyrir íbúa Stykkishólmsbæjar, Grundarfjarðar og Helgafellssveitar. Við lagningu vegarins kom í ljós mjög fallegt og mikið stuðlaberg. Rétt norðan við þann stað var ákveðið að byggja áningarstað, enda útsýnið þar einstakt til norðurs, yfir Breiðafjörðinn, Berserkjahraun og Selvallavatn. Við efnisval var því nærtækt að nýta þetta góða stuðlaberg sem er í næsta nágrenni staðarins. Stuðlaberg í kolla og borð var þannig sérvalið og af því tekið snið. Klæðskerasniðnar sessur og borðplötur úr harðvið gefa því svo hagnýtt gildi. Gólf áningarstaðarins var hellulagt með stuðlabergshellum og bílastæðið lagt klæðningu. Bílastæðið var afmarkað með stuðlabergsstólpum með keðjum á milli, á völdum stöðum.
Það voru einstaklega ánægjuleg forréttindi að fá aðgang að svo flottu stuðlabergi. Það má segja að sjálfbærnin hafi verið höfð að leiðarljósi við hönnun þessa staðar.
Myndir: Kristín Jónsdóttir, ljósmyndari