Hnitsetning landamerkja

Landamerkjalýsingar eru til fyrir flest allar jarðir á Íslandi. Merkjalýsingar þessar voru að mestu leyti skráðar á síðustu tveimur áratugum 19. aldar í kjölfarið á settum lögum um landamerki nr. 5 frá árinu 1882. Landamerkjalýsingarnar sem hér er vitnað til ganga í daglegu tali almennt undir heitinu landamerkjabréf. Ný lög um landamerki nr. 41 tóku gildi árið 1919 og eru þau í fullu gildi. Í þeim er m.a. kveðið á um að landeiganda sé skylt að gera glöggva skrá um landamerki sé hún ekki tiltæk. Þrátt fyrir að landamerkjabréf hafi verið gerð fyrir flestar jarðir má deila um hversu glögg og örugg sú heimild er. Í texta bréfanna er landamerkjum aðeins lýst með tilvísun í örnefni og kennileiti á jörðinni. Þrátt fyrir tilurð landmerkjabréfanna er vitneskja um rétt landamerki víða að tapast með brotthvarfi eldri kynslóða, og einnig er sú hætta fyrir hendi ef jarðir ganga kaupum og sölum.

Landamerki jarða eru án vafa best varðveitt með því að staðsetja þau á hnitréttar loftmyndir, þ.e. svonefnd myndkort. Örnefna sem getið er í landamerkjabréfi eru fundin og staðsett á myndkortið, og landamerkin þannig um leið hnitsett. Hnitsetning landamerkja getur að sjálfsögðu tekið mið af öðrum heimildum en landamerkjabréfunum, eða sérstöku samkomulagi landeigenda. Sýnishorn á framsetningu hnitsetningarskjala til þinglýsingar (fjögur dæmi) á pdf-formi (17 MB) má sjá hér.

HVERS VEGNA AÐ HNITSETJA LANDAMERKI?

  • Vitneskja um landamerki er víða að tapast
  • Eyðir óvissu og ágreiningi um landamerki
  • Lögum um landamerki þarf að framfylgja
  • Landamerkjum er þinglýst hjá sýslumanni
  • Sýna þarf hnitsett landamerki við sölu jarða