Skipulagssvæðið er í heild 5,19 ha að stærð og er á svokölluðum Vatnsás. Svæðið afmarkast í vestri af Aðalgötu, í norðri af tjaldsvæði og þjónustusvæði fyrir ferðamenn, í austri og hluta til í suðri af golfvelli og í suðri af svokölluðu Nýræktarsvæði sem er skipulagt undir frístundabúskap.
Íbúðasvæðið er 5,00 ha að stærð og ferðaþjónustubyggðin er 0,19 ha að stærð. Innan íbúðasvæðis verða á bilinu 55-75 íbúðir eða 11-15 íbúðir á ha. Einbýlishús eru 3, parhús eru 16 með samtals 32 íbúðum og 10 fjölbýlishús með 20-40 íbúðum. Sveigjanleiki er um fjölda íbúða í fjölbýlishúsi þar sem bygging er með nýtanlegu rými undir risi. Það rými getur verið hluti íbúðar með inngang á miðhæð eða stök íbúð með sér inngang. Innan ferðaþjónustubyggðar verða 7 hús með 14 gistieiningum ásamt einu þjónustuhúsi.
Skipulagið er tvíþætt, annars vegar skipulag íbúðabyggðar og hins vegar ferðaþjónustusvæðis.
Meginmarkmið skipulagstillögu íbúðabyggðar voru að:
- – Móta vistvæna byggð sem fellur vel að landslagi, aðliggjandi byggð og byggðamynstri. Skipulagið leggi grunn að nútíma lausnum með sjálfbærni að leiðarljósi.
- – Skapa skilyrði fyrir fjölbreytni er varðar tegund og stærð húsnæðis þar sem lögð er áhersla á parhús og fjölbýlishús (4-8 íbúðir).
- – Skapa skilyrði fyrir fjölbreytni og ákveðnum sveigjanleika er varðar stærðir íbúða þar sem lögð er áhersla á minni íbúðir og sérbýli.
- – Að tryggja góð tengsl um svæðið fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og þannig stuðla að vistvænni samgöngum.
- – Að gera ráð fyrir yfirbyggðum skýlum til flokkunar á sorpi.
Meginmarkmið skipulagstillögu ferðaþjónustubyggðar er að:
- – Móta þétta byggð ferðaþjónustuhúsa þar sem möguleikar eru á útleigu gistirýma.
- – Að tryggja góð tengsl við tjaldsvæði og þjónustusvæði ferðamanna sem liggur norðan Vatnsásvegar.
Hér er hægt að skoða deiliskipulagið að fullu http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/display.aspx?numer=10784