Blágrænar ofanvatnslausnir

Nú í byrjun nóvember sóttu starfsmenn Landlína afar gagnlegt og áhugavert námskeið um blágrænar ofanvatnslausnir hjá endurmenntun Háskóla Íslands. Kennarar voru þær Halldóra Hreggviðsdóttir skipulagsfræðingur og ráðgjafi hjá Alta og Dr. Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands.

Blágrænar ofanvatnslausnir miða að því að veita ofanvatni, þ.e.  regnvatni og leysingarvatni sem rennur í fráveitur af húsþökum, götum, gangstéttum og öðru þéttu yfirborði, á sem náttúrulegastan hátt niður í jarðveginn og viðhalda eins og unnt er eðlilegri hringrás vatns. Það stuðlar að bættum umhverfisgæðum, minna álagi á fráveitukerfi, minni flóðahættu, auknum gróðri og lægri framkvæmda- og rekstrarkostnaði vegna fráveitu svo eitthvað sé nefnt.

Með meiri öfgum í veðurfari er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að huga að þessum hlutum strax á skipulagsstigi ásamt því að innleiða blágrænar ofanvatnslausnir í eldri hverfum.