Menningar- og listamiðstöðin Brúðuheimar var opnuð í Englendingavík í Borgarnesi árið 2010. Það voru þau Bernd Ogrodnik, leikbrúðumeistari og eiginkona hans, Hildur Jónsdóttir, sem fóru af stað með verkefnið. Starfsemin með veitinga- og sýningarhaldi var í þremur friðuðum húsum, sem voru gerð upp í því sem næst upprunalegri mynd. Staðurinn er við Englendingavík og þaðan er fallegt útsýni yfir á Litlu Brákarey. Víkin snýr á móti suð-vestri og er kvöldsólin einstaklega falleg á þessum stað. Fyrir neðan húsin eru leifar af gamalli steinbryggju sem notuð var áður fyrir vöru- og fólksflutninga. Leiðir að Englendingavík eru fyrir gangandi meðfram ströndinni, en einnig að ofanverðu frá Skúlagötu. Mikill hæðarmismunur er frá Skúlagötu og niður í Englendingavík. Aðkoman þar að ofan var gerð með timburstiga sem var felldur að kletti sem afmarkar rými milli veitingastaðar og svokallaðs pakkhúss. Verönd við veitingastaðinn nýtist vel á góðviðrisdögum. Tröppur sem liggja frá veitingastaðnum og niður á veröndina eru endurgerðar í samræmi við ljósmynd sem tekin var árið 1892. Til að koma inn gróðri voru hannaðir litlir plöntukassar úr timbri sem hægt var að færa til eftir hentugleika.
Áhersla var á það við hönnun svæðisins að nota efnivið sem samræmdist stemningu staðarins, þessarar gömlu miðstöðvar fólks og vöruflutninga og var því timbur og grjót í hleðslur fyrir valinu
Myndir: Gunnlaugur A. Björnsson