Deiliskipulagið tekur til Súgandiseyjar, sem er skilgreind sem óbyggt svæði í Aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022. Deiliskipulagssvæðið tekur til 3,5 ha svæðis, sem afmarkast af sjó á þrjá vegu og höfninni til suðurs og veitir þannig bænum skjól fyrir norðanáttinni, sem getur verið nokkuð hörð. Eyjan er í eigu sveitarfélagsins. Eyjan var tengd landi með uppfyllingu á árunum 1980-1990, þegar hafnaraðstaða var útbúin fyrir Breiðarfjarðarferjuna. Með tengingunni varð eyjan eftirsóknarverður áfangastaður fyrir heimamenn, gesti bæjarins og þá sem bíða eftir ferjunni. Eyjan bíður hún upp á einstök tækifæri til að njóta náttúrunnar á eyjunni sjálfri og stórfengslegs útsýnis yfir Stykkishólm og Breiðafjörð. Á eyjunni er mikið fuglalíf og oft má sjá bæði seli og hvali. Eyjan er girt bröttum stuðlabergsklettum en ofan á henni eru tveir aflíðandi grasivaxnir kollar. Aðkoma að skipulagssvæðinu verður óbreytt með tröppum frá hafnarsvæðinu. Á hæsta punkti eyjunnar trónir viti, sem reistur var árið 1897 á Gróttu á Seltjarnarnesi en var fluttur í Súgandisey árið 1948. Vitinn er friðaður sbr. lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Í deiliskipulaginu er leitast við að tryggja öryggi sjófarenda, meðal annars með því að tryggja að vitinn og siglingamerki þjóni áfram hlutverki sínu. Í dag er eitt siglingamerki staðsett á norðanverðri eyjunni. Deiliskipulagið miðar einnig að því að lágmarka inngrip. Þetta er meðal annars gert með því að halda legu gönguleiða, staðsetningu áningastaða og með skilmálum er varða efnisval.
Markmið og forsendur skipulagsins:
Meginmarkmið skipulagsins er tvíþætt; annars vegar að skapa ramma utan um svæði fyrir útivistarfólk til göngu– og náttúruupplifunar og hins vegar að tryggja öryggi sjófarenda með sjótengdum mannvirkjum. Þannig byggir skipulagið á núverandi aðstæðum ásamt því að leggja línur um framtíð svæðisins. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar, Landvarsla við Breiðafjörð 2020, þarf að fara í úrbætur á göngustígum og innviðum Súgandiseyjar. Í skýrslunni segir meðal annars: „Hanna mætti útsýnispall/a þar sem einna helst er farið nálægt brúnum. Einnig mætti loka af villustígum með merkingum eða girðingum og græða þá upp eftir megni. Uppfæra þarf kort sem er á skilti við uppgöngu á eyjuna, en kortið sýnir aðeins hluta af göngustígunum.“ Það er einnig mat sveitarfélagsins að mikil fjölgun ferðamanna kalli á enn frekari uppbyggingu og nýja nálgun í hönnun og efnisvali, að áningarstaðir þurfa að vera stærri að umfangi, bæta þurfi við minni stígum og huga betur að öryggi fólks. Samkvæmt skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir Ferðamálastofu árið 2019, Erlendir ferðamenn í Stykkishólmi sumarið 2018 – Niðurstöður ferðavenjukönnunar, kemur fram að ein helsta ástæða fyrir komu erlendra ferðamanna til Stykkishólms sé staðsetning og fegurð bæjarins og nágrennis. Í skýrslunni kemur einnig fram að áætlaður fjöldi erlendra ferðamanna í Stykkishólmi árið 2018 hafi verið um 235 þúsund og að útivist sé vinsælasta afþreying erlendra ferðamanna í bænum. Tæplega helmingur þátttakanda hugðust fara í gönguferð á meðan á dvölinni stóð, um fjórðungur ætlaði í fuglaskoðun, um 20 prósent vildu smakka mat úr héraði, ríflega 10% ætluðu að heimsækja söfn og/eða ætluðu í bátsferð. Samkvæmt þessum niðurstöðum, má gera ráð fyrir að margir ferðamenn heimsæki Súgandisey. Sumarið 2020 stóð Stykkishólmsbær fyrir hönnunarsamkeppni í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) um sérstakan útsýnisstað í Súgandisey. Samkeppnin hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Alls óskuðu 22 hönnunarteymi eftir því að taka þátt í keppninni og voru fjögur teymi dregin út til áframhaldandi þátttöku. Tillögurnar báru heitin: Fjöreggið, Hólmurinn, Perlan og Stefnið. Þegar dómnefndin hafði valið vinningstillöguna, var valið gert opinbert og nafnleynd létt. Fyrir valinu varð tillagan Fjöreggið, sem var unnin af Glámu-Kím og Landslagi í samstarfi við Ólöfu Nordal og Gunnar Karlsson. Vinningstillagan hafði afgerandi áhrif á hugmyndafræði og vinnu við deiliskipulag Súgandiseyjar. Í greinargerð með tillögunni kemur meðal annars fram að höfundarnir hafi leitast við að finna jafnvægi á milli þess náttúrulega og manngerða, þar sem varfærni, virðing og auðmýkt gagnvart staðnum voru leiðarstef í hugmyndavinnu og lausn verkefnisins. Þar segir jafnframt að markmiðið með tillögunni sé að hrófla við sem minnstu og bæta við sem fæstu. Þannig leitast höfundarnir við að sækja efni í það sem fyrir er í eyjunni, bæði huglægt og efnislega hvað varðar formgerð, liti og tákn og vísanir í gamlar sagnir og þjóðtrú. Í megindráttum beinir vinningstillagan sjónum að tveimur áfangastöðum; Klofinu við Stöngina og Fjöregginu, sem er fyrst og fremst hugsað sem glettið, óvænt og gamansamt kennileiti sem bjóði upp á einstaka náttúruupplifun. Samkvæmt höfundunum, sækir listaverkið bæði form og tilurð í hið margbrotna fuglalíf Breiðafjarðar þar sem nytjar eggs og fugls hafi verið mikilvægt lífsviðurværi í lífi Breiðfirðinga. Þetta nýta höfundar sér sem myndbirtingu lífs og að lífskeðju sé enn sé órofin. Í greinargerðinni segja höfundar einnig frá því að í þjóðsögunum tákni fjöreggið varðveislu lífs og gæfu. Þar segir frá því að tröll hafi spilað djarft með fjöreggin sín með því að henda þeim á milli uns þau dóu út. Þessi skírskotun til lífs og gæfu og þess hversu fallvalt og viðkvæmt lífið sé, undirstrikar enn frekar hugmyndafræðilega nálgun listaverksins. Fjöreggið í Súgandisey vegur salt á á brúninni og minnir okkur þannig á að „leika okkur ekki að fjöreggi náttúrunnar, heldur í fjöreggi náttúrunnar.“ Tillagan gerir ráð fyrir því að Fjöreggið verði steypt í brons, sem tekur á sig náttúrulega spanskgrænu; litatón og áferð ræðst af veðrun umhverfisins. Veggirnir eru þunnir sem skel með götum sem teikna flekki á eggið eins og á eggjum sjófugla. Upplifunin inni í egginu sjálfu byggir á samspili umhverfishljóða, sjávarlyktar, sólar og skugga. Þessum tóni er haldið áfram í hönnun handriðs og áningarstaðar við Klofið sunnan við Stöngina, en handriðið verður úr smíðastáli sem fær að veðrast og ryðga. Handriðið veitir gestum betra og öruggara aðgengi til þess að njóta návistar við stuðlabergsklettana, sjóinn og skoru í berginu þar sem sjá má fugla. Handriðið er í breytilegri fjarlægð frá bjargbrúninni og gefur tækifæri til að skoða Stöngina frá ólíkum sjónarhornum. Það er hæst og þéttast þar sem það liggur næst bjargbrúninni en lækkar eftir því sem fjær dregur. Hönnun handriðsins líkir þannig eftir öldum hafsins og vinds í grasi.
Hægt er að skoða deiliskipulagið hér http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/DisplayDoc.aspx?itemid=qcKPr_iG2k9KKOOa2andw