Deiliskipulag þetta er gert fyrir hluta jarðarinnar Gíslabæ á Hellnum. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið á Snæfellsnesi eftir stofnun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Þörf er fyrir hótelíbúðir og gistiaðstöðu á Snæfellsnesi sem geta rúmað fjölskyldur og minni hópa þar sem fleiri en tveir ferðast saman. Lýsing vegna fyrirhugaðrar aðalskipulagsbreytingar var kynnt fyrir hagsmunaaðilum og umsagnaraðilum. Vegna athugasemda hagsmunaaðila er í tillögu að breytingu aðalskipulags og deiliskipulagstillögu þessari nú aðeins gert ráð fyrir allt að 1.000 fermetra byggingarmagni á reit neðan vegar. Með minnkuðu byggingarmagni er nú gert ráð fyrir að neðan vegar verði hótelíbúðir. Ofan vegar er gert ráð fyrir allt að 8 húsum og verði hvert hús allt að 40 fermetrar að stærð. Á deiliskipulagssvæðinu hallar landi til austsuðausturs og þaðan er stórbrotið útsýni til sjávar og fögur fjallasýn. Lögð er áhersla á að hönnun bygginga og annarra framkvæmda verði vönduð og lögð áhersla á að fella nýbyggingar neðan vegar að mælikvarða húsa á svæðinu. Byggingar verði vistvænar, vatn af þökum falli inn í blágrænar ofanvatnslausnir og sýnd verði fyllsta tillitssemi við umhverfið.
Markmið og forsendur skipulagsins:
Á Gíslabæ á Hellnum er löng hefð fyrir rekstri ferðaþjónustu. Ferðaþjónustuaðili keypti jörðina með það að markmiði að byggja þar upp aukna ferðaþjónustu. Eiginlegur landbúnaður hefur lagst af á jörðinni og er mikilvægt að stuðla að áframhaldandi umhirðu og notkun jarðarinnar til að halda í staðaranda Hellna.
Hægt er að skoða deiliskipulagið hér http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/DisplayDoc.aspx?itemid=E4RymrlvNEetelveA1d8A