Skipulagsáætlanir

AÐALSKIPULAG

Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir sveitarfélag þar sem fram kemur stefna sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar í sveitarfélaginu á minnst 12 ára tímabili. Landínur hafa komið að gerð sjö aðalskipulagsáætlana, þær eru Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022, Kjósarhrepps 2005-2017, Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 og hreppanna fjögurra sem sameinuðust í Hvalfjarðarsveit árið 2006, þ.e. Hvalfjarðarstrandarhreppur, Leirár- og Melahreppur, Skilmannahreppur, og Innri-Akraneshreppur.

DEILISKIPULAG

Deiliskipulag er skipulagsáætlun fyrir tiltekna reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess. Hjá Landlínum hafa verið unnin á annað hundrað deiliskipulagsáætlana.  Verkefnin hafa verið af ýmsum toga.  Má þar nefna deiliskipulagsáætlanir fyrir íbúðabyggð, frístundabyggðasvæði, athafnasvæði, svæði fyrir verslun- og þjónustu, hesthúsabyggð, hafnarsvæði, friðlýst útivistarsvæði, golfvöll, vatnsaflsvirkjanir, flugvöll og kirkjugarða svo eitthvað sé nefnt.

HVERFISSKIPULAG

Hverfisskipulag er skipulagsáætlun fyrir þegar byggð hverfi. Í hverfisskipulagi skal leggja áherslu á almennar reglur um yfirbragð byggðarinnar auk almennra rammaskilmála. Landlínur ásamt Hornsteinum arkitektum og Urban arkitektum eru að vinna saman að hverfisskipulagsáætlun borgarhluta 5 í Reykjavík, sem er Háaleitið, Múlarnir, Kringlan, Bústaða- og Smáíbúðahverfið, Fossvogshverfið og Grófir. Þetta er umfangsmkið verkefni sem hefur staðið yfir síðan 2013 með nokkrum hléum.

BREYTING/-AR Á SAMÞYKKTRI SKIPULAGSÁÆTLUN

Landlínur annast breytingar á skipulagsáætlunum. Öðru hverju kemur til þess að breyta þarf samþykktu deiliskipulagi eða staðfestu aðalskipulagi. Ástæður þess eru margvíslegar og geta varðað textabreytingu í greinargerð, upp í breytingu á landnotkun á skipulagsuppdrætti. Breytingar á skipulagsáætlunum teljast ýmist til óverulegra eða verulegra breytinga og ræðst málsmeðferð (samráð, kynning og auglýsing) af því að hve miklu leyti tillagan sé líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða hafa áhrif á stór svæði.

STOFNUN NÝRRAR LÓÐAR/NÝS LANDS

Ef landeigandi hyggst skipta landi sínu upp í fleiri fasteignir (lóðir) þarf að útbúa merkjalýsingu. Í merkjalýsingu fellst að setja inn afmörkun nýs lands sem felur í sér að útbúa uppdrátt, rýna þinglýst gögn, sækja veðbókavottorð og skrá málið inn í kerfi HMS. Samkvæmt reglugerð um merki fasteigna nr. 160/2024 eru það aðeins merkjalýsendur sem útbúa merkjalýsingu fyrir skráningu á landamerkjum jarða og lóða. Merkjalýsandi er sá sem hefur fengið leyfi hjá ráðherra til að annast gerð merkjalýsingar og staðist próf, starfsmenn Landlína hafa þau réttindi. Þegar merkjalýsing full unnin þarf að fá undirskriftir landeigenda og nærliggjandi landeigna. Þá er hægt að setja inn umsókn hjá viðkomandi sveitarfélagi. Ef um nýja fasteigna er að ræða þarf að fylla út eyðublaðið „F-550 – Umsókn um stofnun fasteigna í fasteignaskrá“, eftir að umsókn hefur verið gerð hjá viðkomandi sveitarfélagi getur merkjalýsandinn skráð málið inn í kerfi HMS. Sveitarfélagið veitir sitt samþykki og sendir áfram til HMS sem klárar málið. Samskonar ferli er viðhaft þegar sameina á tvær eða fleiri fasteignir (lóðir) í eina eða breyting á afmörkun fasteignar. Landlínur hafa mikla reynslu á að útbúa merkjalýsingu fyrir landeigendur og lóðahafa.