MÆLIBÚNAÐUR
Landlínur hafa yfir að ráða landmælingabúnaði frá Trimble sem hefur verið leiðandi í framleiðslu á landmælingatækjum í áratugi. Tækjabúnaður Landlína samanstendur af Geoexplorer 6000 series mælitæki og Zephyr 2 GNSS loftneti. Samhliða þeim tækjum er stuðst við GPS Pathfinder Office og TerraSync hugbúnað. GPS tækið framkvæmir rauntíma-leiðréttingar og nýtist vel til innmælinga og útsetninga í dreifbýli. Staðsetningarnákvæmni búnaðar er á bilinu 0-30 cm.
INNMÆLING
Innmæling nefnist það þegar hnitpunktum er safnað á vettvangi. Þrátt fyrir að hnitréttar loftmyndir (myndkort) geti sparað mönnum mikla vinnu við söfnun hnitpunkta koma alltaf upp tilfelli þar sem myndirnar eru ekki fullnægjandi. Tilgangur innmælinga getur verið margvíslegur, t.d. söfnun hnita í tengslum við hönnun svæða og við hnitun landamerkja. Auk rauntíma-leiðréttingar á GPS merki er mögulegt að gera eftir-á-leiðréttingar á innmælingu til að ná fram enn meiri nákvæmi.
ÚTSETNING
Útsetning nefnist það þegar tiltækir hnitpunktar eru settir út með hælum á vettvangi. Þau hnit sem útsetja á eru færð yfir í landmælingartæki og svo gengið á þau á vettvangi. Dæmi um útsetningar er þegar merkt er fyrir nýjum vegstæðum, lóðamörkum og byggingarreitum í skipulagi sem unnið hefur verið á hnitrétta loftmynd (myndkort). Með svonefndum Beacon, VRS eða EGNOS rauntíma-leiðréttingu á reiknaðri staðsetningu frá GPS tunglum næst fram meiri nákvæmni í útsetningu.