Húsafell og nágrenni þess er ákjósanlegur staður fyrir frekari uppbyggingu á ferðaþjónustu, sérstaklega með tilliti til nálægðar við náttúrufyrirbrigði sem ferðamenn sækjast í. Í farvatninu voru verkefni á borð við Ísgöng í Langjökli (SAGA Geopark), ásamt ýmsum afþreyingarverkefnum á vegum einstaklinga á svæðinu í kring. Gert var ráð fyrir töluverðri aukningu á erlendum ferðamönnum á svæðinu með tilkomu ísganga í Langjökli. Ferðaþjónustan Húsafelli ehf samanstendur af rekstri frístundabyggðar (leiga og sala), sundlaugar, golfvallar, tjaldsvæðis, virkjana og hitaveitu.
Stefnt var að því að stuðla að frekari uppbyggingu ferðaþjónustu og styrkja núverandi rekstur á Húsafelli. Ferðaþjónustan á Húsafelli ehf. var í hyggju að bæta þjónustu á núverandi 4,1 ha verslunar- og þjónustusvæði. Fyrirhugað var að reisa 36 herbergja hótel.
Auk þess var gert ráð fyrir stækkun sundlaugarinnar og stækkun og/eða fjölgun á heitum pottum við hana. Viðbygging á einni hæð við núverandi þjónustuhús var inn í myndinni, svo og bygging sauna með útisturtum. Jafnframt var gert ráð fyrir gámasvæði, svæði til upplýsingamiðlunar, sjálfsala vegna tjaldsvæðis, vegvísum, og fánaborg. Ráðgert var að fjölga bílastæðum um 70 og bæta við 8 stæðum fyrir stóra hópferðabíla. Síðast en ekki síst var gert ráð fyrir endurbótum og fjölgun göngustíga.
Búið er að samþykka tvær breytingar á deiliskipulaginu. Þær fólu í sér að stækka hótelið og þjónustumiðstöðina.
Hér er hægt að skoða deiliskipulagið að fullu http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/display.aspx?numer=12293