Örnefnauppdrættir

Örnefnaskrár hafa verið gerðar fyrir flestar jarðir hérlendis og eru þær varðveittar í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar. Elsta skráin er frá árinu 1910 en afkastamestir voru skrásetjarar á árunum 1930 til 1960. Örnefnaskrár jarða eru ómetanlegur heimildagrunnur fyrir þjóðina. Nyti slíkra skráninga ekki við í dag væru eflaust þúsundir örnefna glötuð með fráfalli fólks sem á jörðunum bjó. Á hinn bóginn eru heimildir um staðsetningu skráðra örnefna víða að tapast með fólki sem þekkti staðhætti á jörðunum. Þess vegna er víða brýnt að staðsetja örnefni á hnitréttar loftmyndir, m.ö.o. svokölluð myndkort, Með slíkri vinnu og framsetningu varðveitast örnefnin best og geta þau þannig einnig verið flutt inn í samræmdan gagnagrunn örnefna hjá Landmælingum Íslands. Auk varðveislugildis getur verið hin mesta prýði af innrömmuðum örnefnauppdrætti sem hangir á vegg. Sýnishorn af örnefnauppdráttum (þrjú dæmi) á pdf-formi (17 MB) má sjá hér.