Skipulagssvæðið tekur til 7 ha svæðis í landi Indriðastaða í Skorradalshreppi. Um er að ræða tjaldsvæði og svæði fyrir útleiguhús til ferðaþjónustu. Indriðastaðir liggja við vesturenda Skorradalsvatns, sunnanmegin í dalnum. Jörðin liggur að Hvalfjarðarsveit í suðri, jörðunum Mófellsstöðum og Grund í vestri, Andakílsá og Skorradalsvatni í norðri og jörðinni Litlu-Drageyri í austri. Aðkoma að Indriðastöðum er að vestan um Mófellsstaðaveg nr. 507, að austan um Dragaveg nr. 520. Stysta vegalengd milli Indriðastaða og Borgarness er 18km. Landslag jarðarinnar er fjölbreytt og tilkomumikið. Skorradalsvatn, Andakílsá og Skarðsheiði setja sterkan svip á umhverfið. Landið hallar að mestu móti norðri. Skipulagssvæðið stendur nærri bænum í 70-74 m y.s. Jörðin stendur hæst í 800 m y.s. Frá Indriðastöðum er víða fagurt útsýni yfir Skorradalinn, til norðvesturs yfir Borgarfjörðinn og í átt að Snæfellsjökli.
Skipulagsáætlun gerir ráð fyrir 5 ha fyrir tjaldsvæði og leiksvæði barna. Svæðið liggur norður af bæjarstæði Indriðastaða. Sameiginleg aðkoma verður að þessu svæði ásamt svæði fyrir útleiguhús til ferðaþjónustu. Vegtenging verður á heimreið Indriðastaða. Gert er ráð fyrir einu þjónustuhúsi og tveim salernishúsum á tjaldsvæðinu. Starfsemi þjónustuhúss er í raun nokkuð opin, það gæti m.a. hýst eldunaraðstöðu, heita potta, gufubað, þvottaaðstöðu og þurrkunaraðstöðu. Gert er ráð fyrir bílastæðum á tveim stöðum fyrir tjaldsvæðið. Svæðið sem skilgreint er sem leiksvæði barna, er hugsað fyrir leiktæki, sparkvöll, grillsvæði og áningu.
Hér er hægt að skoða deiliskipulagið að fullu http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/display.aspx?numer=6518